Flestir þekkja það á einhvern hátt þegar hugurinn fer á algjört flug. Við fáum eitthvað algjörlega á heilann. Það getur verið að okkur finnist við ekki hafa gert eitthvað nægilega vel. Eða hvað við eigum eftir að gera svakalega mikið. Kannski áttum við samtal við yfirmann sem bara fer ekki úr hausnum á okkur. Eða eigum tíma hjá lækni og við erum búin að sjúkdómsgreina okkur þúsund sinnum áður en við mætum.
Við þessar aðstæður þá hellist yfir marga kvíði, streita og það er engin leið að finna einbeitingu til að sinna vinnu eða öðrum verkum. Og þá eykst streitan og kvíðinn yfir því. Komin algjör hringavitleysa sem erfitt er að komast út úr.
En hvernig er hægt að rjúfa þennan vítahring og ná einhverri stjórn á hugsunum okkar?
Hér eru fimm leiðir sem gætu kannski gagnast einhverjum:
Hugsanirnar eru bara hugsanir – ekki raunveruleikinn.
Það er mikilvægt að gefa sér tíma til að skilja að hugsanirnar eru bara hugsanir. Í flestum tilfellum er ekkert sem bendir til þess að þær endurspeigli raunveruleikann.
Stundum fer hausinn á flug og það er gott að vera meðvitaður um það. Það er eðlilegt og það er allt í lagi. En það eru bara hugsanir og ekki raunveruleikinn.
Núvitund getur hjálpað.
Að stunda núvitund getur breytt hugsunarmynstri okkar.
Sem dæmi, þá getur verið gott að stunda öndun. Margar öndunaræfingar eru í boði og eru þær mis erfiðar. Finndu þá aðferð sem hentar þér best.
Það getur einnig verið gott að æfa sig á öndunaræfingunum þegar við erum alveg róleg. Þá höfum við meiri stjórn þegar hugsanirnar fara á flug.
Ef þú hefur engan áhuga á að skoða öndunaræfingar þá er bara gott að draga andann djúpt inn, halda í smá stund og anda frá sér. Gera það nokkrum sinnum þangað til þú hefur róast.
Stundum er hægt að trufla hugann.
Það er stundum hægt að brjóta upp hringavitleysuna með því að trufla hugsanirnar með einhverju öðru.
Tökum smá dæmi:
Hugurinn fer á flug. Þú kannski byrjar að hafa áhyggjur af tölvupósti sem þú skrifaðir í vinnunni fyrr um daginn. Enn hefur þú ekki fengið svar við honum. Þú ferð að hafa áhyggjur hvort þú hafir verið of frek? Eða of undirgefin? Eða eitthvað annað sem gæti hafa verið að póstinum. Brjóttu þá upp hugsanarmynstrið með því að taka meðvitað eftir því að hugurinn sé farinn á fullt.
,,Oh, nú byrja ég aftur”.
Nýttu svo tækifærið og farðu að lesa, horfðu á uppáhalds sjónvarpsþáttinn þinn eða hringdu í vin (eða eitthvað allt annað).
Það er svo gott að hreyfa sig.
Hreyfing hefur jákvæð áhrif á kvíða. Hreyfing hefur bara svo jákvæð áhrif á okkur í heild sinni að það er ekki hægt að sleppa þessu ráði. Okkur líður betur eftir að hafa hreyft okkur og við sofum betur.
Það er einnig hægt að nota hreyfingu til að trufla hugann. Þegar allar hugsanir fara á fullt þá er tilvalið að fara í göngutúr eða skella sér í spinning.
Útkljáum áhyggjurnar.
Stundum er það þannig að ákveðnar hugsanir þarf að útkljá. Það getur verið gott að ákveða tíma sem farið er yfir hugsanir, pælingar og áhyggjur sem ekki er hægt að losna við. Gott er að skrifa þær niður.
Hvað er það allra versta sem getur gerst? Hvernig áhrif hefði það á þig? Hvað getur þú gert til að laga ástandið?
Gefðu þér 10-20 mínútur og haltu síðan áfram með lífið ❤️.
Comments